Portúgölsku leikmennirnir Deco og Ricardo Carvalho gætu verið á leið frá Chelsea til Ítalíumeistara Inter Mílanó þar sem landi þeirra José Mourinho er knattspyrnustjóri. Þetta staðfesti Massimo Moratti, forseti Inter, við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport.
„Mourinho hefur beðið okkur um að fá Deco og Carvalho og við vinnum að því hörðum höndum að gleðja hann. Við vonumst til að kaupa báða leikmennina og ég hef séð að þeir vilja koma hingað. Við höfum enn ekki náð samkomulagi við Chelsea en ég tel að það takist innan tíðar,“ sagði Moratti.
Carvalho, sem er varnarmaður, lék áður undir stjórn Mourinho hjá Chelsea en miðvallarleikmaðurinn Deco kom til Englands frá Barcelona fyrir síðustu leiktíð.