Ívar Ingimarsson segist ekki missa svefn yfir því hver verður skipaður nýr fyrirliði Reading eftir að fyrirliðinn Grame Murty var leystur undan samningi. Ívar var varafyrirliði liðsins en ákvað að láta fyrirliðabandið í hendur James Harpers rétt áður en tímabilið hófst í fyrra en Murty lék ekkert með Reading-liðinu vegna meiðsla.
Ívar segir að það það yrði mikill heiður fyrir sig að verða skipaður fyrirliði liðsins til frambúðar en það séu margir kallaðir.
,,Þetta er ekki eitthvað sem ég hugsa um áður en ég fer að sofa,“ segir Ívar í viðtali við Reading Evening Post en hann er sumarfríi og eyðir því á Íslandi.
,,Við erum með nýjan knattspyrnustjóra og hann kemur með sína leikmenn og hugmyndir. Ég er stoltur af því sem ég afrekað en það eru margir leikmenn hjá félaginu sem geta orðið frábærir fyrirliðar. James Harper er einn þeirra og fyrir mér er hann fyrirliði en það er knattspyrnustjórans að ákveða það. Ef það verður Haper þá er það ekkert vandamál fyrir mig.“
Ívar missti af hálfu tímabilinu en hefur verið í endurhæfingu vegna aðgerðar á hné sem hann gekkst undir í febrúar. Hann stefnir á að verða klár í slaginn þegar keppni í ensku 1. deildinni hefst í byrjun ágúst og markmið hans er að ljúka atvinnumannaferlinum með Reading.
,,Ég vil ljúka ferlinum hjá Reading og ég tjáði forráðamönnum liðsins það fyrir lok tímabilsins. Ég vil spila í þrjú til fjögur ár til viðbótar og draumurinn er að enda ferilinn á Englandi með Reading. Ég hef ekki útilokað að ljúka ferlinum á Íslandi en ég er ánægður hjá Reading og það er fjölskylda mín líka. Hnéð er gott og mér líður vel. Ég er byrjaður að hlaupa og ég er bjartsýnn á að geta tekið fullan þátt í undirbúningstímabilinu sem ég hlakka mikið til,“ segir Ívar, sem gekk í raðir Reading frá Wolves fyrir 1000.000 pund í október 2003 og var fyrsti leikmaðurinn sem Steve Coppell keypti.