Terry gagnrýnir leikbönnin

John Terry fyrirliði Chelsea.
John Terry fyrirliði Chelsea. Reuters

John Terry fyrirliði Chelsea gagnrýnir úrskurð aganefndar UEFA sem í vikunni úrskurðaði Didier Drogba og Jose Bosingwa í leikbönn vegna óprúðmannlegrar framkomu í garð dómara eftir leik Chelsea og Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Terry segir að að viðbrögð Drogba hafði varpað skugga á slaka frammistöðu norska dómarans Tom Henning Ovrebo en flestir eru sammála um að hann hefði átt að dæma að minnsta kosti eina vítaspyrnu á Börsunga í leiknum.

,,Þetta var döpur frammistaða hjá dómaranum. Ég er á því að við hefðum átt að fá nokkrar vítaspyrnur og þetta er eitthvað sem leikmenn og stuðningsmenn okkar koma ekki til með að gleyma.

Drogba baðst afsökunar á ummælum sínum. Hann gerði sér grein fyrir því að ungir krakkar voru að fylgjast með leiknum og hann verðskuldaði leikbann. En svona marga leiki? Það held ég ekki. Kannski tveggja leikja bann. Með bann Bosingwa átta ég mig ekki á. Hann sagði það sem allir stuðningsmenn okkar hugsuðu og okkur leið öllum eins og honum eftir leikinn en sem betur fer sagði enginn það sama og hann,“ sagði Terry við fréttamenn í dag en Bosingwa líkti Ovrebo við þjóf í viðtali eftir leikinn.

Drogba var úrskurðaður í sex leikja bann en þarf líklega að taka aðeins fjóra þeirra út og Bosingwa var úrskurðaður í fögurra leikja bann en líkt og hjá Drogba verður bannið stytt hagi þeir sér vel.

Terry býst ekki við öðru en Chelsea áfrýi úrskurði UEFA og fái bann leikmannanna stytt.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert