Fernando Torres, spænski markhrókurinn í liði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segist ekki vera á leið frá félaginu í sumar, en hann er sagður skotmark erkifjendanna í Manchester United.
„Ég er mjög ánægður með samning minn og ég myndi ekki fara bara til þess að fá ögn meiri pening annarsstaðar þar sem ég væri ekki eins ánægður. Að vilja meira er bara græðgi og slíkt væri ekki líkt mér. Svo lengi sem Liverpool vill halda mér, þá vil ég vera áfram. Það eru margir leikmenn búnir að skrifa undir samninga og skuldbundið sig félaginu, sem þýðir að það er mikill metnaður í mannskapnum. Ég og við allir, trúum því statt og stöðugt að hér getum við unnið enska meistaratitilinn og Meistaradeildina,“ sagði Torres.
Talið er að Manchester United geri tilboð í leikmanninn um leið og gengið hefur verið frá sölu Cristiano Ronaldo til Real Madrid, en fyrir hann fær liðið um 80 milljónir punda. Ljóst er að Liverpool tæki drjúgan hluta þeirrar upphæðar, ef þeir íhuguðu að selja Torres.