Íslandsvinurinn Mike Riley tekur við starfi yfirmanns dómaramála í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um næstu áramót og leysir þá af hólmi Keith Hackett sem hefur gegt því starfi um árabil. Hann er hættur að dæma en mætir á ný á Shellmótið í Eyjum um helgina og dæmir þar úrslitaleikinn.
Riley, sem er 44 ára gamall, hætti að dæma í vor eftir 20 ára dómaraferil og hann mun starfa við hlið Hacketts til áramóta.
Riley hefur oft komið til Íslands og dæmdi m.a. úrslitaleikinn á Shellmótinu í Vestmannaeyjum á síðasta ári. Hann endurtekur það á morgun, laugardag, og það verður því líklega kveðjuleikur hans á ferlinum.