Guðjón: Kaupum okkur ekki upp um deild

Guðjón Þórðarson er að hefja sitt fyrsta heila tímabil hjá …
Guðjón Þórðarson er að hefja sitt fyrsta heila tímabil hjá Crewe. www.crewealex.net

Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe Alexandra, segir að það sé ekki inni í myndinni að kaupa og kaupa leikmenn til þess að koma liðinu aftur upp um deild. Hann muni fyrst og fremst vinna áfram með þann hóp sem sé til staðar hjá félaginu.

Guðjón tók við Crewe um síðustu áramót þegar liðið var í nánast vonlausri stöðu á  botni 2. deildar. Það tók mikinn kipp undir hans stjórn, komst um tíma úr fallsæti en varð að sætta sig við fall niður í 3. deildina þegar upp var staðið.

Guðjón sagði við staðarblaðið Crewe Guardian í dag að félagið hefði eytt talsverðum peningum í leikmenn síðasta sumar, án þess að það hefði skilað tilætluðum árangri.

„Við getum ekki keypt okkur upp um deild, við verðum að vinna fyrir því, verðum að vera skynsamir og taka réttar ákvarðanir," sagði Guðjón og kvaðst lítið hafa gert af því að sleikja sólina í sumarfríinu. Hann er mættur aftur til starfa og æfingar hefjast að nýju á mánudag.

„Ég hef átt annríkt og kannski hef ég verið að horfa eftir betri leikmönnum en við höfum efni á. Það er erfitt að sætta sig við slíkt en ég hef skoðað markaðinn vítt og breitt og kannað ótrúlegan fjölda leikmanna. Vonandi eiga 2-3 þeirra eftir að ganga í okkar raðir á næstu dögum. Það er enginn tilgangur í því að segja frá því núna hverjir það eru, ég vil ganga frá málum og svo er hægt að opinbera það. Við erum ekki að leita að magni, heldur gæðum. Ef ég fæ þrjá leikmenn, mun ég fara af stað með það sem ég hef í höndunum," sagði Guðjón og telur að meira búi í þeim leikmannahópi sem er til staðar hjá félaginu.

„Félagið hafði peninga til umráða síðasta sumar og sumir þeirra sem voru keyptir eiga enn eftir að sanna sig. Þetta verður prófraun fyrir þá en ég tel að sumir þeirra eigi meira inni. Allir fá sitt tækifæri og þegar þeir hefja æfingar komast þeir að því hvers er krafist af þeim. Þeir sem bregðast rétt við munu uppskera, hinir verða í vandræðum. Ég hef ekki áhuga á að vera með stóran hóp en við verðum tilbúnir í slaginn þegar þar að kemur. Vonandi eigum við eftir að sjá nokkra leikmenn sem nýja menn, sterkari og með meiri sigurvilja en áður. Við munum ekki kaupa okkur inní framtíðina, við munum vinna okkur inní framtíðina," sagði Guðjón Þórðarson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert