Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Portsmouth, sem Hermann Hreiðarsson leikur með, halda áfram að taka til í leikmannahópi sínum og í dag var tilkynnt að fimm leikmenn fengju ekki nýja samninga við félagið.
Þetta eru Lauren, Djimi Traore, Noe Pamarot, Glen Little og Jerome Thomas, sem allir eiga það sameiginlegt að hafa lítið eða ekkert spilað með liðinu á síðasta tímabili. Pamarot spilaði mest, 22 leiki, en hvorki Lauren né Traore spiluðu leik með Portsmouth á keppnistímabilinu 2008-2009.
Þar með eru níu leikmenn horfnir á braut frá Fratton Park í sumar en áður voru Glen Johnson, Sean Davis, Jermaine Pennant og Armand Traore farnir. Johnson fór til Liverpool, Davis til Bolton og þeir Pennant og Traore sneru aftur til Liverpool og Arsenal eftir að hafa verið í láni hjá Portsmouth.