Fabio Capello landsliðsþjálfari Englendinga telur að Manchester United geti blásið nýju lífi í feril Michael Owens og hann geti þar með orðið liðsstyrkur fyrir enska landsliðið en Owen hefur verið úti í kuldanum síðustu misserin.
Owen gekk í raðir United í kvöld og gerði tveggja ára samning við ensku meistarana en félagaskiptin hafa vakið mikla athygli og komu mörgum sparkspekingum í opna skjöldu.
Owen hefur ekki átt upp á pallborðið hjá Capello síðan hann tók við þjálfun enska landsliðsins en Owen hefur aðeins fengið að spreyta sig í 45 mínútur undir stjórn Ítalans.
Owen hefur skorað 40 mörk í 89 leikjum með enska landsliðinu og nái hann sér á strik með Manchester United er ekki ólíklegt að Capello líti hýrum augum til hans og velji hann í landsliðshópinn sem leikur á HM í Suður-Afríku á næsta ári en Englendingar eru komnir með annan fótinn og rúmlega það í úrslitakeppnina.