Zhirkov orðinn liðsmaður Chelsea

Zhirkov, til vinstri, í leik gegn Aston Villa.
Zhirkov, til vinstri, í leik gegn Aston Villa. Reuters

Rússneski landsliðsmaðurinn Júrí Zhirkov er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Chelsea. Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Lundúnaliðsins staðfesti vistaskiptin í samtali við enska fjölmiðla í morgun en Rússinn stóðst læknisskoðun í gær og kemur til Chelsea frá rússneska liðinu CSKA Moskva.

Talið er að Chelsea greiði 18 milljónir punda, 3,7 milljarða króna, fyrir Zhirkov, sem er 25 ára gamall sem leikur í stöðu bakvarðar og miðjumanns.  Hann hefur leikið 25 landsleiki fyrir Rússa og sló gegn með Rússum á EM í fyrra þar sem Rússar höfnuðu í fjórða sæti.

Zhirkov er þriðji leikmaðurinn sem Chelsea fær í sumar en í síðustu viku fékk það markvörðinn Ross Turnbull frá Middlesbrough og sóknarmanninn Daniel Sturridge frá Manchester City.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert