Enska blaðið Daily Mail fullyrðir að Evrópumeistarar Barcelona í knattspyrnu hafi enn og aftur hug á að ná í Cesc Fabregas frá Arsenal og nú séu þeir tilbúnir til að bjóða Aliaksandr Hleb og Eið Smára Guðjohnsen til enska félagsins sem hluta af kaupverðinu.
Fabregas, sem lék með unglingaliðum Barcelona en fór 15 ára til Arsenal, hefur ítrekað undanfarnar vikur að hann ætli sér að leika með Lundúnaliðinu allan samningstímann, til 2014, en það hefur ekki dregið úr fregnum á Spáni um að hann sé á leið þangað, ýmist til Barcelona eða Real Madrid. Fabregas hefur hvað eftir annað borið þær fregnir til baka og segir að enskir fjölmiðlar séu alltaf fljótir að mistúlka orð sín þegar hann segi eitthvað við spænsku pressuna.
Daily Mail segir að Arsenal vilji fá 46 milljón evrur, eða tæpar 40 milljónir punda, fyrir Fabregas, og Barcelona leiti nú leiða til að fjármagna þá upphæð. Þar komi Hleb til sögunnar en hann var seldur frá Arsenal til Barcelona fyrir tveimur árum en hefur ekki náð að festa sig í sessi. Eiður er líka sagður inni í myndinni því miklar líkur séu á því að hann flytji sig um set í sumar og fari til Englands á ný.