Glen Johnson, enski landsliðsbakvörðurinn sem Liverpool keypti af Portsmouth á dögunum, sendi José Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóra Chelsea, kaldar kveðjur í viðtali í Sunday Times sem kom út í kvöld.
Johnson lék með Chelsea undir stjórn Mourinhos, sem nú stýrir Inter Mílanó á Ítalíu, og segir að hann hafi snemma komist að því að það væri ekkert að marka orð Portúgalans.
Claudio Raineri, forveri Mourinhos, keypti Johnson til Chelsea, frá West Ham, árið 2003 og Johnson segir að frá byrjun hafi það verið ætlun Mourinhos að nota landa sinn, Paulo Ferreira, í stöðu hægri bakvarðar.
„Við áttum leik fyrir höndum gegn Barcelona, en tveimur leikjum áður valdi Mourinho mig í liðið og sagði í viðurvist fimm vitna að ef ég stæði mig vel, myndi ég halda sæti mínu. Ég var valinn maður leiksins, og var settur útúr hópnum fyrir næsta leik. Þið verðið að spyrja Mourinho um ástæður þess en ég veit að hann vildi ekki taka neina áhættu á því að ég ætti annan góðan leik og hann myndi neyðast til að velja mig í liðið fyrir Barcelona-leikinn.
Þann dag vissi ég að ég yrði að komast á brott frá Chelsea. Knattspyrnustjórar verða að standa við sín orð, það verður að vera hægt að treysta þeim. Ég vissi eftir þetta, í þau fáu skipti sem hann notaði mig, að þó ég myndi skora fjögur mörk, yrði ég ekki í liðinu í næsta leik á eftir. Þetta er það versta sem fótboltamaður upplifir.
Mér líður vel þegar ég hugsa til þess hvort Mourinho velti því fyrir sér hvað um mig hafi orðið eftir að ég fór frá Chelsea. Hann gaf mér aldrei skýringar á því hvers vegna hann notaði mig ekki. Sennilega hélt hann að ég myndi lognast útaf sem fótboltamaður hjá Portsmouth, og sennilega héldu 70 prósent fótboltaáhugamanna það líka. Ég held að ég hafi sýnt mig og sannað og menn eins og José gera líka mistök," sagði Glen Johnson m.a. í viðtalinu.