Kári Árnason, sem undanfarin tvö ár hefur spilað í Danmörku með AGF og Esbjerg, er til reynslu hjá enska 1. deildarliðinu Plymouth Argyle, og hefur staðið sig mjög vel að sögn knattspyrnustjórans, Pauls Sturrocks.
Kári lék æfingaleik á sunnudag ásamt mörgum öðrum leikmönnum sem fengu tækifæri til að sýna sig og sanna hjá félaginu. Hann var sá eini úr þeim hópi sem síðan fékk að spila æfingaleik með aðalliði Plymouth í gærkvöld en hann spilaði seinni hálfleikinn í 2:0 sigri á utandeildaliðinu Truro City. Kári lék sem aftasti miðjumaður í leiknum.
„Hann sýndi að hann hefði burði í að spila með okkur, hann les leikinn vel, er stór og líkamlega sterkur, og brást ekki á neinn hátt - ég var mjög ánægður með hann," sagði Sturrock um Kára í blaðinu Evening Herald.
Kári er á góðri leið með að vinna sér inn samning hjá Plymouth, samkvæmt blaðinu, en liðið spilar fleiri æfingaleiki í vikunni.
Plymouth, sem er frá samnefndri borg á suðvesturodda Englands, hafnaði í 21. sæti af 24 liðum í ensku 1. deildinni síðasta vetur en var ekki í teljandi fallhættu þrátt fyrir þá útkomu.
Einn Íslendingur hefur spilað með Plymouth en Bjarni Guðjónsson lék með liðinu í 1. deildinni í eitt ár, frá janúar 2005 til janúar 2006, og spilaði þá 25 deildaleiki með liðinu.