Tévez: Sýndu mér ekki nægan áhuga

Carlos Tévez með nýju City-treyjuna í dag.
Carlos Tévez með nýju City-treyjuna í dag. Reuters

Carlos Tévez, argentínski knattspyrnumaðurinn, sagði á blaðamannafundi hjá Manchester City, sínu nýja félagi, í dag að hann hefði farið frá Manchester United vegna þess að Alex Ferguson og framkvæmdastjórinn David Gill hefðu ekki sýnt honum nægilegan áhuga.

„Það er ekki stuðningsmannanna vegna sem ég yfirgaf United, heldur vegna þess að Sir Alex Ferguson og David Gill gerðu ekki nóg til að halda mér hjá félaginu. Ef stuðningsmennirnir hefðu fengið að ráða, væri ég þar enn. Ég vil þakka Manchester United, David Gill, Sir Alex Ferguson og stuðningsmönnunum fyrir ánægjulegan tíma hjá félaginu en nú bíður mín ný áskorun og ég er mjög ánægður með að vera kominn til Manchester City," sagði Tévez á fundinum í dag.

Hann sagði jafnframt að Ferguson hefði verið sér mjög fjarlægur þau tvö ár sem hann var í röðum United. „Ég  var þar í tvö ár og Sir Alex hringdi aldrei eða sendi mér skilaboð á þeim tíma. Í eina skiptið sem hann talaði við mig var eftir leik gegn Roma og þá til að ræða við mig stöðu mála vegna landsleiks hjá Argentínu. Svona ætti ekki að koma fram við leikmann í heil tvö ár," sagði Tévez.

Hann kvaðst mjög ánægður með að vera kominn til Manchester City. „Manchester City er með aðstæður og eigendur sem hugnast mér vel. Þeir hafa sýnt mér framá að þeir ætla City að verða eitt stærsta félag heims og gerðu mér mjög auðvelt fyrir með að taka ákvörðun," sagði Carlos Tévez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert