Enska knattspyrnufélagið West Bromwich Albion hefur hafnað tilboði Fulham í fyrirliðann Jonathan Greening og segja forráðamenn WBA að tilboð úrvalsdeildarfélagsins hafi verið nánast móðgandi.
Samkvæmt Sky Sports bauð Fulham tvær milljónir punda í Greening, ásamt því að WBA mátti velja á milli þriggja leikmanna úr hópi Fulham.
„Hvað sem sagt er í fjölmiðlum, þá er þetta eina tilboðið sem við höfum fengið frá Fulham. Jonathan er fyrirliðinn okkar og mikilvægur í okkar hópi. Þess vegna veltum við tilboði Fulham ekki lengi fyrir okkur. Það var móðgandi, miðað við hæfileika hans og reynslu,"sagði Jeremy Peace, stjórnarformaður WBA, við Birmingham Mail.
Greening er þrítugur miðjumaður sem hefur leikið með WBA í fimm ár en hann lék áður með Middlesbrough, Manchester United og York City.