Enska knattspyrnufélagið Fulham tilkynnti í dag að það hefði tekið tilboði frá Hull City í sóknarmanninn Bobby Zamora, en Hull bauð Lundúnafélaginu fimm milljónir punda í kappann.
Zamora hefur aðeins verið í röðum Fulham í eitt ár en hann var keyptur frá West Ham. Hann náði sér ekki á strik og náði einungis að skora fjögur mörk í öllum mótum á tímabilinu, tvö í úrvalsdeildinni og tvö í bikarkeppninni.
Bobby Zamora er 28 ára gamall Englendingur sem lék með West Ham í fjögur ár, þar áður með Tottenham í eitt ár en hann vakti fyrst athygli með liði Brighton þar sem hann skoraði 70 mörk í 119 deildaleikjum.