Kári Árnason er genginn til liðs við Plymouth í ensku 1. deildinni í knattspyrnu. Þetta kemur fram á vef Plymouth í dag. Kári gerir eins árs samning við félagið, en hann var ekki í náðinni hjá þjálfara AGF í Danmörku.
Kári stóðst læknisskoðun í dag og skrifaði undir samning við Pílagrímana, eins og liðið er kallað af stuðningsmönnum sínum.
Kári fór til reynslu til Plymouth í síðustu viku og náði að heilla Paul Sturrock, þjálfara Plymouth.
„Hann sýndi að hann hefði burði í að spila með okkur, hann les leikinn vel, er stór og líkamlega sterkur, og brást ekki á neinn hátt - ég var mjög ánægður með hann," sagði Sturrock um Kára í blaðinu Evening Herald.