Sven-Göran í viðræðum við Notts County

Sven-Göran Eriksson, kemur hann aftur til Englands?
Sven-Göran Eriksson, kemur hann aftur til Englands? Reuters

Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, með meiru, er í viðræðum við forráðamenn enska 3. deildarfélagsins Notts County um að gerast þar yfirmaður knattspyrnumála, samkvæmt frétt BBC.

Fjárfestar frá Miðausturlöndum keyptu þetta fornfræga félag fyrir skömmu en forráðamenn Notts County hafa hvorki játað né neitað fréttunum um Svíann margreynda sem nú er atvinnulaus eftir að hafa verið rekinn úr starfi sem landsliðsþjálfari Mexíkó í vor.

Fullyrt hafði verið að Eriksson yrði ráðinn knattspyrnustjóri félagsins en það hefur verið  borið til baka. Hann er 61 árs gamall og var knattspyrnustjóri Manchester City tímabilið 2007-2008 en stýrði áður Lazio, Sampdoria, Fiorentina og Roma á Ítalíu, Benfica í Portúgal og IFK Gautaborg í Svíþjóð.

Notts County er frá borginni Nottingham í Mið-Englandi og er elsta knattspyrnufélag heims, stofnað árið 1862. Félagið hafnaði í 19. sæti 3. deildar á síðasta tímabili og mátti hafa sig við til að falla ekki útúr deildakeppninni. Sautján ár eru síðan Notts County spilaði síðast í efstu deild en það var  tímabilið 1991-92. Félagið varð bikarmeistari árið 1895.

Guðjón Þórðarson var knattspyrnustjóri Notts County eitt tímabil, 2005-2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert