Adebayor óhress með Wenger og stuðningsmenn Arsenal

Emmanuel Adebayor telur að Arsene Wenger hafi ekki komið vel …
Emmanuel Adebayor telur að Arsene Wenger hafi ekki komið vel fram við sig. Reuters

Emmanuel Adebayor, sóknarmaðurinn sem Arsenal seldi til Manchester City á dögunum, lýsti yfir furðu sinni á framkomu Arsenes Wengers, knattspyrnustjóra Arsenal, og stuðningsmanna félagsins í sinn garð þegar hann ræddi við fréttamenn í Suður-Afríku í kvöld.

Adebayor skýrði frá því að þegar hann hafi komið úr fríi fyrir tveimur vikum hefði Wenger komið til sín og tilkynnt sér að hann hefði samþykkt að selja sig til Manchester City.

„Ég spurði hann, hvers vegna hann vildi að ég færi núna, hvers vegna hann vildi selja mig. Ég áttaði mig svo á því að Arsenal vantaði fjármuni, og þá var ég söluvaran. Mér var ýtt í burtu. En ég er ánægður með að þeir fengu hátt verð fyrir mig og vona að þeir verji því vel," sagði Adebayor.

Hann kvaðst ekki skilja hvers vegna stuðningsmenn Arsenal hefðu verið sér andsnúnir allt síðasta tímabil en þeir snerust margir hverjir gegn honum fyrir ári síðan eftir að útlit var fyrir að hann færi frá félaginu á þeim tíma. „Þetta er einkennilegt. Þegar leikmaður spilar vel, er hann elskaður af stuðningsmönnum. Ég skoraði 30 mörk um veturinn, og gat ekkert gert að því þó AC Milan, Barcelona eða Real Madrid vildu kaupa mig. Ég skil ekki hvers vegna þeir snerust gegn mér. Ég gerði allt, talaði við þá, spilaði með félaginu í þrjú ár og lagði mig allan fram. Þeirra framkoma í minn garð var ekki góð," sagði framherjinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert