Steven Gerrard, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, var í dag sýknaður af ákæru um líkamsárás, en hann átti aðild að slagsmálum sem urðu á krá í Liverpool í lok síðasta árs.
Gerrard viðurkenndi fyrir rétti að hann hefði slegið kærandann, Marcus McGee, og baðst afsökunar á framkomu sinni en sagði að um sjálfsvörn hefði verið að ræða þar sem hann hefði talið að McGee ætlaði að ráðast á sig.
Rétturinn féllst á útskýringar fyrirliðans, sem var að fagna stórsigri á Newcastle, 5:1, fyrr um kvöldið ásamt nokkrum félögum sínum. Átökin brutust út þegar McGee neitaði að spila tónlist sem Gerrard óskaði eftir.