Ítalskir fjölmiðlar greina frá því í dag að ítalski landsliðsmaðurinn Andrea Pirlo sé á leið frá AC Milan til Chelsea en hann er með í höndunum afar gott tilboð í höndum frá Lundúnaliðinu.
Að því er fram kemur í ítalska blaðinu Il Giornale hefur Pirlo tekið tilboðinu frá Chelsea og á einungis eftir að skrifa undir samninginn en hann kemur til með að kosta Chelsea um 20 milljónir evra sem jafngildir um 3,6 milljörðum króna.
Chelsea hefur boðið Pirlo fjögurra ára samning og 6 milljónir evra í árslaun sem nemur rúmum einum milljarði íslenskra króna en Carlo Ancelotti fyrrum þjálfari AC Milan sem er við stjórnvölinn hjá Chelsea vill ólmur fá miðjumanninn snjalla til liðs við sig.