Jamie Carragher varnarmaðurinn sterki hjá Liverpool segist vera ánægður að fyrrum samherji sinn og vinur Michael Owen sé kominn til eins af toppliðunum í ensku úrvalsdeildinni en vonar þó að hann geri það ekkert allt of gott með Manchester United á komandi leiktíð.
,,Að fá Owen til liðs við sig var snjallt svona viðskiptalega og hann hefur byrjað vel á undirbúningstímabilinu,“ segir Carragher í viðtali við breska blaðið Sunday Mirror en Owen gekk óvænt í raðir Manchester United í síðasta mánuði sem fékk hann frá Newcastle án greiðslu.
,,Ég er ánægður fyrir hans hönd að hann fór til stórliðs því hann mátti þola mikla gagnrýni hjá Newcastle. Hvers vegna? Hvað gerði hann rangt þar? Fyrir mér er Michael Owen enn frábær leikmaður og mín tilfinning er sú að hann verði góður með United.
En hann leikur með okkar helstu keppinautum svo hann veit að ég vill ekki að hann haldi áfram að skora þegar tímabilið byrjar. Hann hefur skorað mörg mörk í fyrstu leikjunum með United og vonandi skorar hann nokkur fleiri í undirbúningsleikjunum en um leið og deildin hefst þá vona ég að hægi á sér í markaskoruninni,“ segir Carragher.