Ítalski miðvallarleikmaðurinn Alberto Aquilani skrifaði í dag undir samning við enska stórliðið Liverpool sem gildir til fimm ára. Aquilani, sem hefur verið óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina, stóðst læknisskoðun í dag en talið er að Liverpool greiði Roma 20 milljónir punda fyrir kappann sem samsvarar 4,2 milljörðum króna.
Aquilani er ætlað að fylla skarð Spánverjans Xabi Alonso sem fyrir skömmu var seldur til Real Madrid fyrir 30 milljónir punda.
Aquilani, sem er 25 ára, hefur leikið 102 deildarleiki fyrir Roma og á einnig að baki ellefu A-landsleiki fyrir Ítalíu.