Taylor: Newcastle er grín

Taylor í leik með liði sínu Newcastle sem féll úr …
Taylor í leik með liði sínu Newcastle sem féll úr úrvalsdeildinni í vor. Reuters

Varnarmaðurinn Steven Taylor er ekki ánægður með þann glundroða sem ríkir í herbúðum Newcastle þessa dagana og sparaði ekki stóru orðin skömmu fyrir fyrsta leik liðsins í 1. deildinni sem er gegn WBA í dag.

Enn er óvíst hver stýrir Newcastle-liðinu á þessari leiktíð en Alan Shearer tók við því í febrúar og stýrði til loka tímabilsins eftir að Joe Kinnear varð að hætta en hann er enn að jafna sig á hjartaaðgerð. Þá er eigandi félagsins, Mike Ashley, að reyna sitt besta til að selja félagið sem féll úr úrvalsdeildinni í vor og hefur misst nokkra af sínum bestu leikmönnum í sumar.

„Leikmennirnir eru hundfúlir yfir þessu því við viljum fá stjóra og stöðugleikann sem fylgir því. Það er allt og sumt. Ég hef lesið í hverri viku að Alan Shearer verði næsti stjóri, svo á Joe Kinnear að tak við starfinu, því næst Kevin Keegan og loks er Alan Shearer aftur sagður ætla að taka við. Ég skil þetta ekki. Félagið er bara grín,“ sagði Taylor hreinskilnislega.

„Nýi stjórinn ætti að fá tíma til að móta liðið og ef hann vill eitthvað ákveðið á hann að fá það. Ef eigandinn elskar félagið þá gerir hann það. Ég er mjög vonsvikinn með að Alan Shearer skuli ekki vera búinn að fá stöðuna. Sem leikmenn þá höfum við ekki hugmynd um hvað gengur á,“  sagði Taylor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert