Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist í viðtali við breska blaðið Times ávallt bera hag leikmanna liðsins fyrir brjósti í samskiptum sínum við fjölmiðla. Með það að leiðarljósi segist hann alltaf tilbúinn að hagræða sannleikanum fái hann erfiðar spurningar um leikmenn sína eða gjörðir þeirra.
„Já, því stundum hugsar maður með sér „Af hverju gerði leikmaðurinn þetta?“ og maður veit að maður getur ekki svarað því,“ sagði Frakkinn snjalli.
„Stundum sé ég atvik en kýs að segjast ekki hafa séð þau til þess að vernda leikmenn, því ég finn ekki neina rökrétta ástæðu fyrir því sem hann hefur gert,“ bætti Wenger við en hann hefur einmitt haft orð á sér fyrir að svara spurningum um umdeilanleg atvik í leikjum með því að hann hafi ekki séð þau.
„Þjálfarinn er til þess að hjálpa. Hann verður að hugsa með sér að hjálpi hann leikmönnum muni þeir launa honum með góðri frammistöðu,“ sagði Wenger sem þvertók fyrir að vera á leið frá Arsenal á næstunni.
„Ég vil klára það sem ég byrjaði á hérna. Ég er búinn að byggja upp þetta lið og ég vil sjá það bera ávöxt, og ef ég færi þá væri ég í raun að svíkja sjálfan mig.“