Sir Alex Ferguson, stjóri Englandsmeistara Manchester United, segir það fáránlegt ætli menn að afskrifa nágrannaliðið í Manchester City í enska boltanum á þessari leiktíð. Sir Alex missti Carlos Tévez til City, sem hefur styrkt sig töluvert í sumar og keypt leikmenn fyrir meira en 100 milljónir punda.
Gárungar hafa gagnrýnt liðið og sagt að það þurfi tíma til að ná saman og því verði það ekki með í kapphlaupinu um meistaratitilinn, eða jafnvel meistaradeildasæti, en Ferguson er ekki á sama máli.
„Það væri fáránlegt að líta framhjá þeirri þróun sem á sér stað hjá City. Þeir eru vissulega ógnun. Við þurfum aðeins að líta til Chelsea til að sjá að peningar gera gæfumuninn, lið sem vann tvö ár í röð eftir að Rússapeningar streymdu inn í félagið. Allir bíða eftir að sjá hvort Hughes höndli ástandið og láti hlutina gerast. Og við erum allir að horfa yfir öxlina á okkur, en hvað Manchester United varðar, er það ekki af ótta,“ sagði Ferguson.