Stefán Logi Magnússon sem er í láni hjá Lilleström frá KR-ingum fær mikið hrós fyrir frammistöðu sína í leiknum gegn Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í gær. Stefán lék sinn fyrsta leik á milli stanganna og átti stórleik og í fyrsta sinn í 24 leikjum fékk Lilleström ekki á sig mark. Þökk sé Stefáni Loga.
Lilleström hélt marki sínu hreinu síðast þann 27. september í fyrra svo það þótti tíðindum sætta að liðið skildi ekki fá á sig mark og það á útivelli gegn Vålerenga.
,,Það var frábært að fá að spila hérna og mér var sagt eftir leikinn að eitt ár sé liðið frá því Lilleström hélt hreinu síðast,“ sagði Stefán Logi eftir leikinn en sparkspekingar í Noregi eru sammála því að Stefán hafi átt stærstan þátt í sigri sinna manna en hann varði hvað eftir annað meistaralega vel.
Stefán Logi er á þriggja lánssamningi við Lilleström en ákvæði eru í samningi sem Lilleström og KR gerðu að Lilleström geti gert samið við Stefán til frambúðar standi hann undir væntingum.
,,Ég hef komist að því eftir þessa viku sem ég hef verið hér að Lilleström er frábært félag og ég vonast til að vera hér áfram,“ sagði Stefán við norska fjölmiðla eftir leikinn en í umfjöllun sinni um frammistöðu Stefáns nefna þeir að hann hafi um tíma verið á mála hjá Bayern München og hafi orðið vingott við Owen Hargreaves fyrrum leikmann Bæjara, sem nú er á mála hjá Manchester United.
,,Við erum virkilega góðir vinir og ég hef lært mikið af honum varðandi lífið. Hann er frábær manneskja og er stórkostlegur leikmaður sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann hringir oft í mig og við ræðum mikið saman,“ segir Stefán.