Sir Alex Ferguson var vitaskuld ekki sáttur við tap lærisveina sinna í Manchester United fyrir nýliðum Burnley þegar liðin áttust við í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.
„Burnley átti góðar tíu mínútur í leiknum sem færðu þeim sigurinn,“ sagði Ferguson við MUTV.
„Við vorum of kærulausir í færunum sem við fengum. Stundum notuðum við of margar snertingar í stað þess að skjóta strax. Á síðustu tuttugu mínútunum vorum við svo farnir að flýta okkur mikið og tókum eina eða tvær rangar ákvarðanir,“ bætti stjórinn við.
Michael Carrick fékk upplagt tækifæri til að jafna metin í 1:1 skömmu fyrir leikhlé þegar hann tók vítaspyrnu sem Patrice Evra fiskaði en honum brást bogalistin og Ferguson segir muna um minna.
„Ég held að við hefðum unnið leikinn. Þá hefðum við getað náð meira jafnvægi í okkar leik og tekið nauðsynlegan tíma í allar aðgerðir í seinni hálfleiknum,“ sagði Ferguson.