Baráttuglaðir leikmenn Aston Villa unnu í kvöld góðan sigur á Liverpool, 1:3, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en liðin áttust við á Anfield, heimavelli Liverpool. Þar með náði Villa í sín fyrstu stig í deildinni en Liverpool er með 3 stig eftir þrjá leiki, hefur tapað tveimur leikjum eða jafnmörgum og á öllu tímabilinu í fyrra í úrvalsdeildinni.
Liverpool - Aston Villa atvikalýsing
Lucas Leiva varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark á 33. mínútu og á lokasekúndum fyrri hálfleik skallaði Curtis Davies boltann í netið eftir hornspyrnu og kom Villa í 2:0.
Fernando Torres minnkaði muninn fyrir heimamenn eftir þunga sókn á 71. mínútu en fimm mínútum síðar skoraði Ashley Young þriðja mark Aston Villa úr vítaspyrnu sem dæmd var réttilega á Steven Gerrard þegar hann felldi Nigel Reo-Coker.