Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool segir að leikur sinna manna verði að lagast en Liverpool tapaði í kvöld sínum öðrum leik í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili þegar liðið beið lægri hlut fyrir Aston Villa, 1:3, á heimavelli.
,,Fyrstu 20 mínúturnar áttum við okkar færi en nýttum þau ekki. Okkur urðu svo á mistök, gerðum sjálfsmark og fengum á okkur mark í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Við pressuðum stíft í seinni hálfleik en gáfum þeim vítaspyrnu og við gerðum okkur seka um of mörg mistök á örlagaríkum augnablikum,“ sagði Benítez eftir leikinn í kvöld.
,,Augljóslega spiluðum við ekki vel. Við töpuðum boltanum gegn liði sem gerði vel í skyndisóknum sínum. Við töpuðum og verðum að bæta okkar leik. Nú verðum við bara að leggja Bolton að velli í næsta leik og hugsum ekki um annað.“