Varnarmaður Everton, Joleon Lescott, er orðinn næst dýrasti varnarmaður Bretlandseyja frá upphafi, en Manchester City greiðir Everton 22 milljónir punda fyrir þennan 27 ára gamla leikmann, sem stóðst læknisskoðun hjá City í dag.
Lescott hefur átt í vandræðum með hnémeiðsli, en hann komst þó klakklaust í gegnum læknisskoðun í dag.
Kaupverðið getur farið upp í 24 milljónir punda með bónusgreiðslum, en laun Lescott munu tvöfaldast hjá City, en hann fékk 47.000 pund á viku hjá Everton.
Rio Ferdinand er enn dýrasti varnarmaður Bretlandseyja, en Manchester United greiddi Leeds 29.1 milljónir punda fyrir leikmanninn árið 2002.