Liverpool með gott tak á Aston Villa

Steven Gerrard skorar eitt þriggja marka sinna gegn Aston Villa …
Steven Gerrard skorar eitt þriggja marka sinna gegn Aston Villa á síðustu leiktíð. Reuters

Liverpool og Aston Villa eigast við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í kvöld þar sem Liverpool stefnir á að fylgja eftir góðum sigri á Stoke í síðustu viku en lærisveinar Martins O'Neills í liði Aston Villa vonast til þess að komast á blað í ensku úrvalsdeildinni en þeir töpuðu á heimavelli fyrir Wigan í fyrsta og eina leik sínum til þessa.

Þegar liðin áttust við í deildinni á sama stað á síðustu leiktíð vann Liverpool stórsigur, 5:0, þar sem fyrirliðinn Steven Gerrard skoraði þrennu en Gerrard hefur skorað 10 mörk í leikjum á móti Aston Villa sem er það mesta sem hann hefur skorað hjá liði í deildinni.

Liverpool hefur haft gott tak á Aston Villa en liðið hefur ekki tapað síðustu 16 deildarleikjum gegn Villa og Aston Villa er það lið sem Liverpool hefur fengið flest stig á móti í úrvalsdeildinni eða 62 talsins.

Gríski varnarmaðurinn Sotirios Kyrgiakos gæti leikið sinn fyrsta leik fyrr Liverpool í kvöld en hann gekk í raðir liðsins fyrir helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert