Egil „Drillo“ Olsen þjálfari norska landsliðsins segir í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten að hann gleymi aldrei þeim stuðningi sem hann fékk frá landsliðsfyrirliðanum Hermanni Hreiðarssyni þegar „Drillo“ var knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Wimbledon.
„Ég hef ekki haft samband við Hermann frá þeim tíma en hann er leikmaður sem ég kann að meta, einn af mínum uppáhaldsleikmönnum,“ segir „Drillo“ en hann mætir til leiks á Laugardalsvöllinn með norska landsliðið þann 5. september n.k. Þegar „Drillo“ var knattspyrnustjóri hjá Wimbledon fór hann á leik með Brentford og sá Hermann leika í hjarta varnarinnar hjá enska liðinu.
„Hermann var aðeins 25 ára gamall en hann var leiðtogi liðsins. Ég sá hann í þessum eina leik og ég óskaði eftir því að hann yrði keyptur til Wimbledon. Ungur íslenskur leikmaður kostaði ekki mikið á þeim tíma en hann hefur verið í úrvalsdeild síðan þá. Hann býr yfir eiginleikum sem einkenna fyrirliða. Hermann er hörkunagli“
Hermann lék sem vinstri bakvörður í vörn Wimbledon en það fór að halla undan fæti hjá félaginu og „Drillo“ missti traustið hjá mörgum af lykilmönnum liðsins en Hermann studdi við bakið á Norðmanninum allt þar til að hann var rekinn.
„Það gekk mikið á undir lokin hjá mér sem knattspyrnustjóri liðsins. Um það bil tveimur vikum áður en ég var rekinn kom Hermann inn á skrifstofuna til mín og sagði. „Ég styð við bakið á þér og það gera fleiri leikmenn líka.“ Þessu gleymi ég aldrei,“ segir Egil „Drillo“ Olsen.