Shevchenko ekki með Chelsea í Meistaradeildinni?

Shevchenko hefur ekki náð sér á strik með Chelsea.
Shevchenko hefur ekki náð sér á strik með Chelsea. Reuters

Andriy Shevchenko, þriðji markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar frá upphafi, verður að öllum líkindum ekki í 22 manna hóp Chelsea sem gjaldgengur er í Meistaradeild Evrópu á þessu tímabili, ef marka má breska vefmiðla.

Aðeins Raúl og Ruud Van Nistelrooy hafa gert fleiri mörk en Shevchenko í Meistaradeildinni, en þessi snjalli Úkraínumaður hefur ekki átt velgengni að fagna hjá Chelsea eftir að hann kom frá AC Milan 2006.

Þeir Didier Drogba, Nicolas Anelka, Salomon Kalou og Daniel Sturridge eru allir framar í goggunarröðinni, og samkvæmt reglum UEFA yrði Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Chelsea, að velja milli Drogba, Bosingwa, eða Shevchenko, um hver verður skilinn útundan í Meistaradeildinni.

Chelsea getur ekki valið 25 leikmenn líkt og leyfilegt er, heldur verður að láta sér nægja 22 leikmenn, þar sem ekki eru nægilega margir heimaaldir leikmenn hjá félaginu.

Ancelotti hefur þó sagt að Shevchenko eigi sér framtíð hjá félaginu, en hann hyggst eiga hann í bakhöndinni þegar líður að áramótum, en þá fara þeir Drogba og Kalou á Afríkumótið í Angóla, sem hefst í janúar.

Óvíst er hvort Shevchenko, sem eitt sinn var talinn besti framherji í heimi, láti bjóða sér slíkt, eða kjósi að fara frá félaginu nú í ágúst, meðan hann hefur tíma til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert