Fulham og Everton í Evrópudeildina

Damien Duff og félagar í Fulham eru komnir í riðlakeppni …
Damien Duff og félagar í Fulham eru komnir í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Reuters

Everton og Fulham verða fulltrúar Englands í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu og verða í hattinum í dag þegar dregið verður til riðlakeppninnar. Aston Villa féll hinsvegar óvænt úr keppninni.

Everton var ekki í vandræðum með að tryggja sér áframhald úr útsláttarkeppninni gegn Frambönunum í Sigma Olomouc. Eftir 4:0 sigur á Goodison Park var 1:1 jafntefli í Tékklandi meira en nóg fyrir strákana hans Davids Moyes. Steven Pienaar kom Everton yfir en Pavel Sultes jafnaði metin fyrir Sigma og enska liðið vann 5:1 samanlagt.

Fulham slapp með skrekkinn í Rússlandi þar sem Lundúnaliðið lék gegn Amkar Perm. Fulham hafði unnið fyrri leikinn á Craven Cottage, 3:1, en Rússarnir sigruðu í gærkvöld, 1:0. Markið sem Martin Kushev fyrirliði þeirra skoraði kom þó ekki fyrr en undir lok leiksins, en í uppbótartíma munaði engu að Amkar skoraði aftur, og það hefði tryggt liðinu áframhald á marki á útivelli. Fulham vann sem sagt 3:2 samanlagt.

Aston Villa tapaði á dögunum fyrir Rapid Vín í Austurríki, 0:1, og þurfti því tveggja marka sigur á heimavelli sínum, Villa Park. Ashley Young krækti í tvær vítaspyrnur í fyrri hálfleik, markvörður Rapid varði þá fyrri frá honum en James Milner skoraði úr þeirri síðari. Þegar John Carew kom Villa í 2:0 í byrjun síðari hálfleiks virtist enska liðið með pálmann í höndunum. En Nikica Jelavic náði að svara fyrir Rapid á 77. mínútu, 2:1, og það nægði austurríska liðinu sem fór áfram á útimarkinu eftir að liðin voru jöfn samanlagt, 2:2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert