Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal var rekinn upp í áhorfendastúkuna á Old Trafford í gær þegar hans menn lágu fyrir Englandsmeisturum Manchester United, 2:1.
Mike Dean dómari leiksins rak Wenger af bekknum í kjölfar marks sem Robin Van Persie skoraði á lokasekúndunum en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
,,Ég sparkaði bara í vatnsflösku. Ég gerði það út af því að ég var vonsvikinn en ekki vegna þess að ég hafi haldið að þetta hefði ekki rangstaða. Fjórði dómarinn kallaði á dómarann og hann rak mig af bekknum, Það voru 30 sekúndur eftir og ég vissi ekki hvert ég ætti að fara,“ sagði Wenger, sem sá sína menn tapa í fyrsta sinn á leiktíðinni.
,,Við vorum betri aðilinn í leiknum en við töpuðum og það er erfitt að kyngja því,“ sagði Wenger.