Talsmaður enska 3. deildarfélagsins Crewe Alexandra, þar sem Guðjón Þórðarson er knattspyrnustjóri, staðfesti við Sky Sports í kvöld að framherjinn Ajay Leitch-Smith hefði verið kallaður aftur til félagsins úr láni hjá ÍBV.
Ástæðan er sú að Clayton Donaldson, aðal framherji Crewe, brákaðist á fæti í leik liðsins á laugardaginn og verður frá keppni í minnsta kosti sex vikur. Talsmaður Crewe sagði að hann yrði jafnvel ekki leikfær fyrr en í nóvember.
Leitch-Smith hefur til þessa spilað með unglingaliðum og varaliði Crewe en hann er aðeins 19 ára gamall og hefur vakið talsverða athygli fyrir frammistöðu sína með Eyjamönnum í sumar.
Fram kom um síðustu helgi að bæði Leitch-Smith og Chris Clements færu frá ÍBV til Crewe og yrðu ekki meira með Eyjaliðinu á tímabilinu. Ekkert hefur verið staðfest um komu þeirra til Crewe á vef félagsins enn sem komið er.