Slaven Bilic, landsliðsþjálfari Króatíu í knattspyrnu og fyrrum leikmaður West Ham, kveðst hafa fundið veikleika enska landsliðsins fyrir viðureign þjóðanna í undankeppni HM á Wembley á miðvikudagskvöldið. Hann vill að sjálfsögðu ekki gefa upp hver veikleikinn er.
„Enska liðið er ýmsum kostum búið en það vantar líka ákveðinn þátt í leik þess. Það vantar ákveðna enska þætti, sem hafa hingað til gert ensk lið erfið að spila gegn og verjast. En ég segi ekki meira en það að enska liðið er með veikleika og við þekkjum hann. Að sjálfsögðu segjum við ekki hver hann er," sagði Bilic við fréttastofuna AFP.
Enska liðið hefur unnið alla sjö leiki sína í riðlinum og er fjórum stigum á undan Króötum, sem auk þess hafa leikið einum leik meira. Sigur myndi gulltryggja Englendingum sæti í lokakeppni HM í Suður-Afríku.
„Við erum eina liðið í heiminum sem hefur unnið Englendinga í tveimur leikjum í röð, og það skiptir máli," sagði Bilic, og vitnar þar til undankeppni síðasta Evrópumóts. Englendingar unnu hinsvegar stórsigur í Króatíu á síðasta ári, 4:1, í fyrri viðureign þjóðanna í undankeppni HM.