Heskey býst við að Defoe taki stöðuna

Jermain Defoe skorar fyrir England gegn Slóveníu.
Jermain Defoe skorar fyrir England gegn Slóveníu. Reuters

Emile Heskey, framherji enska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekkert geta haft við það að athuga ef Fabio Capello þjálfari liðsins láti hann víkja og velji Jermain Defoe í hans stað fyrir HM-leikinn mikilvæga gegn Króatíu á miðvikudagskvöldið.

Enska liðið, sem hefur unnið alla sjö leiki sína í undankeppni HM og er með sex stiga forystu í riðlinum, getur gulltryggt sér sæti í lokakeppninni með því að leggja Króatana að velli.

Defoe hefur verið í miklum ham að undanförnu, hann kom inná fyrir Heskey og skoraði seinna mark Englands í vináttulandsleiknum gegn Slóveníu, og hefur verið drjúgur í leikjum Englands og Tottenham undanfarnar vikur og mánuði.

Defoe hefur nú gert 11 mörk í 36 landsleikjum en Heskey hefur hinsvegar aðeins náð að skora 7 mörk í 55 landsleikjum. Hlutverk hins síðarnefnda er þó kannski vanþakklátara, hann er "stóri" framherjinn sem á að draga að sér varnarmenn og opna fyrir hina.

„Þegar litið er á tölurnar get ég ekki mikið sagt. Jermain hefur staðið sig frábærlega. Hann skorar nánast í hvert skipti sem hann kemur inná völlinn. Það er lykilatriðið. Við erum í samkeppni, en það er góð samkeppni. Hún þýðir að maður er alltaf á tánum og veit að það er nauðsynlegt að spila vel. Ég kann vel við mig þegar ég er einn í fremstu víglínu, og Jermain líkar það einnig vel. Svo erum við með fleiri góða sóknarmenn sem er fínt," sagði Heskey við Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert