Emile Heskey, framherji enska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekkert geta haft við það að athuga ef Fabio Capello þjálfari liðsins láti hann víkja og velji Jermain Defoe í hans stað fyrir HM-leikinn mikilvæga gegn Króatíu á miðvikudagskvöldið.
Enska liðið, sem hefur unnið alla sjö leiki sína í undankeppni HM og er með sex stiga forystu í riðlinum, getur gulltryggt sér sæti í lokakeppninni með því að leggja Króatana að velli.
Defoe hefur verið í miklum ham að undanförnu, hann kom inná fyrir Heskey og skoraði seinna mark Englands í vináttulandsleiknum gegn Slóveníu, og hefur verið drjúgur í leikjum Englands og Tottenham undanfarnar vikur og mánuði.
Defoe hefur nú gert 11 mörk í 36 landsleikjum en Heskey hefur hinsvegar aðeins náð að skora 7 mörk í 55 landsleikjum. Hlutverk hins síðarnefnda er þó kannski vanþakklátara, hann er "stóri" framherjinn sem á að draga að sér varnarmenn og opna fyrir hina.
„Þegar litið er á tölurnar get ég ekki mikið sagt. Jermain hefur staðið sig frábærlega. Hann skorar nánast í hvert skipti sem hann kemur inná völlinn. Það er lykilatriðið. Við erum í samkeppni, en það er góð samkeppni. Hún þýðir að maður er alltaf á tánum og veit að það er nauðsynlegt að spila vel. Ég kann vel við mig þegar ég er einn í fremstu víglínu, og Jermain líkar það einnig vel. Svo erum við með fleiri góða sóknarmenn sem er fínt," sagði Heskey við Sky Sports.