Enska dagblaðið Manchester Evening News hefur eftir Guðna Bergssyni, fyrrum leikmanni Bolton Wanderers, að íslenski landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson verði fljótur að vinna sér sæti í liði Bolton á nýjan leik.
Grétar Rafn var fastamaður í liði Bolton síðasta vetur, spilaði nánast hvern einasta leik sem hægri bakvörður, og skoraði tvö mörk í úrvalsdeildinni auk þess að leggja mörg upp með góðum fyrirgjöfum. Í fyrstu þremur leikjum Bolton á nýju tímabili hefur Grétar hinsvegar verið varamaður og Sam Ricketts hefur tekið stöðu hans. Grétar glímdi við veikindi fyrir fyrsta leikinn í deildinni.
Blaðið segir að brotthvarf Grétars úr liðinu hafi vakið furðu margra stuðningsmanna Bolton því litríki Íslendingurinn sé þar mjög vinsæll.
„Ég tel að Gretski hafi spilað vel síðan hann kom til félagsins. Hann gefur liðinu nýja vídd með fyrirgjöfum sínum, auk þess sem hann hefur skorað og lagt upp mörk. Gretski hefur tekið miklum framförum á öllum sviðum frá því hann var áhugamaður og stöðugt bætt sig. Ég er viss um að hann á eftir að verða enn betri," er haft eftir Guðna í Manchester Evening News.
Grétar leikur með íslenska landsliðinu gegn Georgíu á Laugardalsvellinum annað kvöld og á síðan fyrir höndum botnslag gegn Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Þar mætast tvö lið sem ekki hafa fengið stig í fyrstu umferðum deildarinnar.