Ferguson: Væri brjálæði að borga foreldrum

Alex Ferguson er fullviss um sakleysi sinna manna.
Alex Ferguson er fullviss um sakleysi sinna manna. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur stigið fram, félagi sínu til varnar, en það er nú sakað um að beita ólöglegum aðferðum við að tæla til sín unga og efnilega leikmenn frá Frakklandi og Ítalíu.

Forseti franska knattspyrnufélagsins Le Havre, Jean-Pierre Louvel, hefur m.a. fullyrt að United hafi boðið foreldrum Pauls Pogba, 16 ára leikmanns þeirra, hús og 170 þúsund punda greiðslu í tengslum við samningsgerð við piltinn.

Þá hefur Fiorentina á Ítalíu kvartað til FIFA vegna samnings United við 16 ára varnarmann þeirra, Michele Fornasier. Eftir að FIFA bannaði Chelsea að kaupa leikmenn í 18 mánuði vegna ólöglegra aðferða við að fá til sín franskan pilt hafa fleiri kvartanir og kærur í garð stóru liðanna í Englandi fylgt í kjölfarið.

„Þetta hefur ýtt skriðu af stað en ég get fullvissað alla um að Manchester United hefur á allan hátt staðið rétt að samskiptum sínum við unga leikmenn og foreldra þeirra. Við höfum aldrei nokkurn tíma greitt foreldrum. Það væri brjálæði að svo mikið sem íhuga slíkt því þar væru menn komnir út á hinar verstu brautir í þessu," sagði Ferguson á  fréttamannafundi.

„Við fengum þetta í andlitið frá vonsviknum stjórnarmanni í frönsku félagi og hann mun þurfa að draga þetta til baka. Við stöndum óaðfinnanlega að svona málum. Það var ljóst að sem stærsta félagið yrðum við dregnir inní þessa umræðu, en það er ekki nokkur fótur fyrir því að við höfum tekið þátt í slíku. Það er umdeilt hvað önnur félög hafa gert í þessum efnum en ég veit að við erum með hreinan skjöld," sagði Ferguson, sem býr lið sitt undir slag við Tottenham á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka