Það er ekki bara Tomás Rosický sem er að snúa aftur í hóp Arsenal eftir meiðsli. Nokkrar líkur eru á að enski landsliðsmaðurinn Theo Walcott verði í hópnum hjá Arsene Wenger í fyrsta skipti á þessu tímabili þegar lið hans sækir Manchester City heim á laugardaginn.
Walcott hefur glímt við meiðsli í baki og Arsene Wenger knattspyrnustjóri kennir því um að hann skyldi vera tekinn með í úrslitakeppni Evrópumóts 21-árs landsliða í sumar þó augljóst hefði verið að pilturinn þyrfti hvíld vegna mikils álags.
Walcott lék fimm leiki með Englendingum í þeirri keppni í júnímánuði og var síðan í leikmannahópi A-landsliðs Englands í vináttuleik gegn Hollandi í ágúst. Hann hefur hinsvegar ekki náð að leika eina mínútu með Arsenal í fyrstu umferðum úrvalsdeildarinnar.