Walcott líka í hópinn hjá Arsenal?

Theo Walcott er að ná sér af meiðslum.
Theo Walcott er að ná sér af meiðslum. Reuters

Það er ekki bara Tomás Rosický sem er að snúa aftur í hóp Arsenal eftir meiðsli. Nokkrar líkur eru á að enski landsliðsmaðurinn Theo Walcott verði í hópnum hjá Arsene Wenger í fyrsta skipti á þessu tímabili þegar lið hans sækir Manchester City heim á laugardaginn.

Walcott hefur glímt við meiðsli í baki og Arsene Wenger knattspyrnustjóri kennir því um að hann skyldi vera tekinn með í úrslitakeppni Evrópumóts 21-árs landsliða í sumar þó augljóst hefði verið að pilturinn þyrfti hvíld vegna mikils álags.

Walcott lék fimm leiki með Englendingum í þeirri keppni í júnímánuði og var síðan í leikmannahópi A-landsliðs Englands í vináttuleik gegn Hollandi í ágúst. Hann hefur hinsvegar ekki náð að leika eina mínútu með Arsenal í fyrstu umferðum úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert