Stórleikur verður á White Hart Lane í Lundúnum á morgun þegar Tottenham tekur á móti Englandsmeisturum Manchester United. Tottenham er með fullt hús stiga, 12 stig, og hefur ekki byrjað betur í 49 ár en United hefur 9 stig í þriðja sæti.
Tottenham endurheimtir markvörðinn Heurelho Gomes og miðjumanninn Jermaine Jenas sem hafa verið meiddir. Rio Ferdinand verður hugsanlega með United og spilar sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu en John O'Shea er meiddur spilar ekki.
Manchester United hefur haft gott tak á Tottenham en Lundúnaliðið hefur ekki náð að vinna í síðustu 16 deildarleikjum liðanna eða síðan árið 2001 og United hefur aðeins tapað þremur af 34 rimmum liðanna, öllum á White Hart Lane.
,,Ég yrði ánægður að fá fjögur stig út úr næstu tveimur leikjum,“ sagði Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, í dag en um næstu helgi mætir Tottenham liði Chelsea á Stamford Bridge.
,,Þetta eru tvö af fjórum bestu liðum í Evrópu en við höfum staðið í öllum liðum frá því ég kom hingað. Við vitum að sjálfsögðu allt um styrk Manchester United en það er mikið sjálfstraust hjá leikmönnum mínum og ég tel að við höfum lið og mannskap til að fara með sigur gegn meisturunum,“ sagði Redknapp.