Emmanuel Adebayor framherji Manchester City segist ekki trúa því að hann fái leikbann fyrir ósæmilega hegðun í viðureign City og Arsenal á laugardaginn. Tógómaðurinn skoraði þriðja mark City í leiknum og fagnaði því með að hlaupa yfir endilegan völlinn og ögra stuðningsmönnum Arsenal.
Enska knattspyrnusambandið hyggst skoða þetta atvik og eins þegar Adebayor sást traðka ofan Robin van Persie.
,,Ég veit ekki hvað ég hef gert rangt af mér svo ég verði dæmdur í bann,“ segir Adebayor í viðtali við The Sun en City keypti Tógómanninn frá Arsenal í sumar fyrir 25 milljónir punda.
,,Ég hef ekkert heyrt að lögreglan né enska knattspyrnusambandið vilji ræða við mig,“ segir Adebayor og viðurkennir að hann hafi gert mistök með því hlaupa í áttina til stuðningsmanna Arsenal.