Bann Eduardos fellt niður

Eduardo getur leikið með Arsenal í upphafi Meistaradeildarinnar.
Eduardo getur leikið með Arsenal í upphafi Meistaradeildarinnar. Reuters

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, felldi í dag niður tveggja leikja bannið sem það hafði áður sett á Eduardo, sóknarmann Arsenal, fyrir meinta dýfu þegar hann krækti í vítaspyrnu gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Þar með getur Eduardo tekið þátt í tveimur fyrstu leikjum Arsenal í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Arsenal áfrýjaði úrskurði UEFA, sem í dag féllst á rök enska félagsins þegar málið var tekið fyrir.

„Ég er mjög ánægður með að það rétta skuli loksins vera komið í ljós. Við þurftum að sanna hvernig atburðarásin var og okkur tókst það. Nú líður mér mun betur. Ég vil bara taka það fram að ég er heiðarlegur leikmaður. Maður verður að nýta tækifæri til að skora mörk og ég þarf ekki á því að halda að vera óheiðarlegur til að skora," sagði Eduardo á vef Arsenal.

Í yfirlýsingu frá Arsenal segir: „Okkur tókst að sýna framá að markvörðurinn snerti Eduardo og þar með ætti að ógilda úrskurðinn. Við styðjum heilshugar átakið til að sýna heiðarleika í fótboltanum og teljum brýnt að UEFA setji  skýr mörk sem farið sé eftir. Við erum ánægðir með að geta lagt þetta atvik til hliðar og einbeitt okkur að leikjum sem nú fara í hönd."

Arsenal mætir Standard Liege í Belgíu á miðvikudagskvöldið og á síðan heimaleik gegn Olympiakos Pireus þann 29. september. Eduardo hefði að óbreyttu misst af þessum leikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert