Enska knattspyrnusambandið hefur birt Tógómanninum Emmanuel Adebayor í liði Manchester City tvær ákærur vegna ósæmilegrar hegðunar í viðureign City og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.
Adebayor er sakaður um að hafa traðkað á höfði Robin van Persie og fyrir að hafa ögrað stuðningsmönnum Arsenal þegar hann skoraði þriðja mark City gegn sínum gömlu samherjum í Arsenal.
Verði leikmaðurinn fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér 3-5 leikja bann sem þýddi að hann yrði fjarri góðu gamni í leik Manchester United og Manchester City sem mætast á Old Trafford á sunnudaginn.
Tógómaðurinn hefur frest til klukkan 18 á morgun að svara ákæru enska knattspyrnusambandsins.