Emil Hallfreðsson og samherjar hans í Barnsley unnu í kvöld sinn fyrsta leik í ensku 1. deildinni í knattspyrnu á þessu keppnistímabili þegar þeir lögðu Derby á útivelli, 3:2.
Emil lék í 85 mínútur og fór þá af velli en í lýsingu Sky Sports var sagt að hann væri mjög áberandi í leik Barnsley. Hann lagði upp annað mark liðsins með sendingu innfyrir vörn Derby á Andy Gray. Barnsley komst úr botnsætinu, hafði aðeins fengið eitt stig í fyrstu sex leikjunum, en er nú í 22. sæti af 24 liðum með 4 stig.
Kári Árnason og félagar hans í Plymouth eru sestir á botninn í staðinn eftir 0:1 tap gegn Watford á heimavelli. Plymouth hefur ekki unnið leik og er með aðeins 2 stig. Kári spilaði allan leikinn í stöðu miðvarðar. Watford er hinsvegar komið í 6. sætið með 12 stig en Heiðar Helguson er kominn til félagsins í láni frá QPR og spilar sinn fyrsta leik um næstu helgi.
Aron Einar Gunnarsson kom inná sem varamaður hjá Coventry á 85. mínútu þegar liðið vann Sheffield United, 3:2. Coventry lyfti sér uppí 9. sætið með 11 stig.
WBA er efst í 1. deild eftir leiki kvöldsins með 17 stig, Middlesbrough og Newcastle eru með 16 stig en Newcastle á leik til góða. Þetta eru einmitt þau þrjú lið sem féllu úr úrvalsdeildinni í vor.