Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool sagði eftir útisigurinn á West Ham, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni í dag að spænski framherjinn Fernando Torres yrði stöðugt betri og betri leikmaður.
Torres skoraði tvö glæsileg mörk í dag og gerði sigurmarkið eftir að West Ham hafði jafnað metin í tvígang.
„Ef hann heldur áfram að spila eins og hann gerði í dag, getur hann skipað sér í hóp þeirra allra bestu. Í úrvalsdeildinni er mikill fjöldi hæfileikaríkra leikmanna og það er erfitt að segja til um hver sé sá besti, en hann er í hópi þeirra bestu. Hann hefur alla burði til að bæta sig enn frekar og gerir það vonandi," sagði Benítez við Sky Sports.
„Í leiknum í Meistaradeildinni skoraði hann ekki en skapaði öðrum leikmönnum færi og svæði. Í dag ógnaði hann meira og það þýddi að samherjar hans gátu einbeitt sér að öðrum hlutum," sagði Benítez um landa sinn.