Malky McKay, knattspyrnustjóri Watford, sagði að Heiðar Helguson hefði heldur betur sýnt styrk sinn í dag. Heiðar kom inná í sínum fyrsta leik með Watford og skoraði tvívegis þegar liðið gerði jafntefli, 3:3, við Leicester í ensku 1. deildinni.
Heiðar lék á sínum tíma í hálft sjötta ár með Watford og skoraði þá 64 mörk fyrir félagið. Hann kom aftur þangað í vikunni, sem lánsmaður frá QPR, og fyrsti leikurinn var í dag.
Heiðar var á varamannabekknum en eftir að staðan var 0:2 í hálfleik, Leicester í hag, sendi McKay Dalvíkinginn til leiks. Um 25 mínútum síðar var Watford komið í 3:2 og Heiðar hafði gert tvö markanna, og Danny Graham eitt.
„Heiðar sýndi strax á fyrstu mínútunni til hvers hann var kominn inná völlinn þegar engu munaði að hann skoraði, og frá þeirri stundu sýndi hann styrk sinn svo um munaði. Hann lagði afar hart að sér og mér fannst samvinna hans og Danny Grahams frábær. Heiðar kom mér hinsvegar ekkert á óvart því ég veit vel hvers konar leikmaður hann er," sagði McKay við Sky Sports.
Framlag Heiðars nægði þó ekki til sigurs því Leicester jafnaði metin í uppbótartíma og lokatölur urðu 3:3.