Tévez með á Old Trafford?

Carlos Tévez fagnar marki fyrir Manchester City.
Carlos Tévez fagnar marki fyrir Manchester City. Reuters

Góðar líkur eru taldar á því að Carlos Tévez geti leikið með Manchester City í grannaslagnum gegn hans gamla félagi, Manchester United, á Old Trafford í dag en leikur liðanna hefst kl. 12.30.

Tévez er að jafna sig af meiðslum á hné og gengst undir meiðslapróf rétt áður en upphitun fyrir leikinn hefst, og þá kemur í ljós hvort hann sé leikfær.

Nokkur orðaskipti hafa átt sér stað í fjölmiðlum á milli Tévez og Alex Fergusons eftir brotthvarf þess fyrrnefnda frá Old Trafford. Tévez hefur ítrekað sagt að Ferguson hafi ekki gert neitt til að halda sér hjá félaginu og varla talað við sig þann tíma sem hann lék þar. Þá hefur Tévez sagt að Ferguson sé greinilega í afneitun, hann viðurkenni ekki að lið United sé veikara eftir að það seldi Cristiano Ronaldo til Real Madrid.

„Ef Ferguson heilsar mér, þá svara ég í sömu mynt. Það vita hinsvegar allir að hann gerði lítið til að halda mér hjá félaginu," sagði Tévez við Sunday People.

Ferguson hefur sagt að Tévez megi búast við því að fá kaldar kveðjur frá fyrrum aðdáendum sínum á Old Trafford ef hann tekur þátt í leiknum í dag. „Viðbrögð þeirra gætu komið honum á óvart," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert