Benítez reiknar með erfiðum leik á Elland Road

Rafael Benítez á æfingasvæði Liverpool.
Rafael Benítez á æfingasvæði Liverpool. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool reiknar með erfiðum leik hjá sínum mönnum þegar þeir mæta Leeds United í 3. umferð ensku deildabikarkeppninnar á Elland Road annað kvöld.

,,Ég býst við því að það verði uppselt á leikinn og ég reikna með erfiðum leik. Við vitum að Leeds er stór klúbbur og við berum mikla virðingu fyrir honum. Ég hef séð leiki liðsins á DVD og það er alveg á hreinu að stuðningsmenn Leeds eru liðinu mjög mikilvægir. Þeir standa með sínum mönnum allan tímann og gera mótherjunum erfitt fyrir. Leeds á frábæra stuðningsmenn og við verðum að vera vel einbeittir,“ segir Benítez.

Leeds trónir á toppi ensku 2. deildarinnar. Liðið hefur 22 stig eftir átta leiki, hefur unnið 7 leiki og gert eitt jafntefli. 

Benítez ætlar að stokka töluvert upp í liði sínu og gefa minni spámönnum tækifæri í leiknum. ,,Það er ekkert vanmat í gangi hjá okkur. Þrátt fyrir að ég muni gefa mönnum tækifæri mun ég stilla upp sterku liði. Við stefnum á að vinna þessa keppni. Á mínu fyrsta ári hjá Liverpool fórum við í úrslit í deildabikarnum. Ég myndi gjarnan vilja fara í úrslitaleikinn aftur og koma fram hefndum á móti Chelsea.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert